Search

Uppbygging þjálfunar

Updated: May 12, 2018

Við þjálfun íþróttamanna er markmiðið gjarnan að þróa ákveðna færni sem stuðlar að bættri frammistöðu í viðkomandi íþrótt. Þjálfun almennings getur að einhverju leyti miðað að hinu sama þó áherslan sé gjarnan á almennt viðhald líkamlegrar og andlegrar getu, og að draga úr líkum á lífstílstengdum sjúkdómum. Til að viðhalda heilsu þarf að vera meðvitaður um líkamlegt og andlegt ástand, og skipuleggja þjálfun í samræmi við það. Ganga þarf úr skugga um að hver einstaklingur sé í stakk búinn til að takast á við það æfingaálag sem lagt er upp með, og að þjálfun sé skipt upp í miskrefjandi tímabil. Vel upp sett þjálfun ætti að hafa í för með sér aukinn skilning iðkenda á mikilvægi æfinga, skipulags, hvíldar og næringar fyrir líkamlega og andlega heilsu. Æfingavali þarf að vera þannig háttað að iðkandi geti aukið færni sína með tímanum. Þó ætti ekki að vera stöðug aukning á álagi, heldur hefur reynst vel að hafa léttari æfingar eða æfingavikur á milli þess sem álag er aukið.

Þetta má allt hafa til hliðsjónar við uppsetningu á æfingaáætlun fyrir jóga, en til eru ótal nálganir og mismunandi stílar. Margir hefja sína jógaástundun af heilsueflandi ástæðum og hafa vinsældir þess aukist gífurlega á Vesturlöndum undanfarin ár. Margir sækjast í jóga til að losa um streitu, sumir sækja í andlegu nálgunina á meðan aðrir leita eftir líkamlegum ávinningi á borð við aukinn liðleika og styrk. Þó eru ákveðnar undirliggjandi forsendur í hugar- og líkamsþjálfun á borð við jóga sem er að lífeðlisfræðilegt ástand líkama geti haft áhrif á tilfinningar, hugsanir og viðhorf, sem hafa svo einnig gagnkvæm áhrif á líkamann.

Af algengustu jógastílunum eru það Hatha og Ashtanga jóga sem leggja hvað mest upp úr líkamlegri hreysti. Orðið Ha þýðir sól og Tha þýðir tungl, og í grunninn snýst Hatha jóga um að koma jafnvægi á orkuflæðið í líkamanum, að vekja upp lífsorkuna (prana) í gegnum öndunaræfingar og líkamsstöður. Hatha jógaæfingakerfið samanstendur af 84 líkamsstöðum.

Með því að stunda líkams- og öndunaræfingar finna margir fyrir miklum heilsufarslegum ávinningi og regluleg ástundun hefur meðal annars hjálpað iðkendum að styrkja og liðka stoðkerfið, auka blóðflæði í líkamanum, draga úr liðverkjum og auka súrefnisflæði um líkamann. Með því að iðka Hatha jóga 3-7 sinnum í viku í 30-90 mínútur í senn er hægt að uppskera marga af líkamlegum ávinningum þess. Aðalatriðið með ástundun Hatha jóga er að ná upp liðleika og styrk og vera líkamlega fær um að sitja kyrr með bakið beint í hugleiðslustöðu án óþæginda.

Ávinningur sem hlýst af jógaiðkun er jafnbreytilegur og ástæður fyrir því að fólk hefur ástundun þess. Bætingar eru sömuleiðis breytilegar eftir því hvar fólk er statt. Kjarni málsins er að allir ættu að geta fundið leið til að iðka jóga í samræmi við eigið getustig, áhugasvið og markmið.
91 views0 comments

Recent Posts

See All