Til eru margar leiðir til að iðka jóga, en mismunandi jógastílar leggja ólíkar áherslur. Flestir eiga þeir það sameiginlegt að innihalda hinar átta grunnstoðir jóga, með mismikla áherslu á hverja fyrir sig:
Yama - Sjálfsstjórn
Niyama - Sjálfsagi
Asana - Líkamsstaða
Pranayama - Stjórn lífsorku
Pratyahara - Stjórn skynfæra
Dharana - Einbeiting
Dhyana - Hugleiðsla
Samadhi - Hugljómun
Auknar vinsældir jóga í líkamsræktarstöðvum og sem viðbót í þjálfun hjá íþróttafólki undanfarin ár hafa ýtt undir þróun í átt að jógaiðkun sem miðar sérstaklega að því að bæta líkamlega hreysti. Áhrif hvers jógastíls eru þó mismunandi þar sem áherslur eru ólíkar, sumir stílar samanstanda af öflugum og vel krefjandi líkamsæfingum á meðan aðrir miða meira inn á athygli og sjálfsvitund þar sem áhrifin eru meira huglæg. Til dæmis er Ashtanga jóga krefjandi æfingakerfi þar sem ákveðnar stöður eru framkvæmdar í ákveðinni röð í takt við öndun. Hatha jógahefðin gerir ráð fyrir margþættri iðkun, en ásamt líkamsæfingum er mikið lagt upp úr öndunaræfingum og hreinsun á líkamanum með ýmiss konar tækni. Í Iyengar jóga er megináhersla lögð á nákvæma framkvæmd æfinga og stöðum yfirleitt haldið í langan tíma, jafnvel með aðstoð púða, kubba eða annarra aukahluta. Kundalini jóga felur sömuleiðis í sér nákvæma tækni, en ásamt líkamsstöðunum er gjarnan notast við beitingu augnanna (drishti), handastöður (mudra), hugleiðslu og möntrusöng. Kundalini, Ananda og Sivananda jógastílarnir eiga það sameiginlegt að miða sérstaklega að andlegri uppljómun með hinum ýmsu aðferðum.
