Search

Rannsóknir á áhrifum jóga

Updated: May 12, 2018

Rannsóknir á áhrifum jóga

Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum jógaiðkunar á mismunandi þætti. Hér verður fjallað lauslega um nokkrar þeirra, og tengill látinn fylgja með þar sem hægt er að nálgast frekari upplýsingar.


Hatha jóga og heilsutengd líkamleg hreysti

Heilsutengdir þættir líkamlegrar hreysti hafa verið skilgreindir sem styrkur og þol vöðva, liðleiki, stjórnun hjarta og öndunar, og líkamssamsetning. Áhrif jógaiðkunar á þessa þætti hafa verið skoðuð, meðal annars í rannsókn þar sem tíu óþjálfaðir einstaklingar voru mældir, og sóttu svo tíma í Hatha jóga yfir átta vikna tímabil. Þátttakendum var gert að mæta að minnsta kosti tvisvar í viku í 90 mínútna jógatíma þar sem farið var í öndunaræfingar, upphitun, jógastöður og slökun. Áhersla var lögð á að framkvæma allar æfingar nákvæmlega og í samræmi við eigin getu, og að halda athygli á andardrættinum allan tímann. Allir mættu oftar en tvisvar í viku, eða að meðaltali í 21,5 jógatíma á mann. Hópurinn stundaði enga aðra hreyfingu á meðan, en áhrifin eftir tímabilið voru greinileg.

Marktækur munur var á ákveðnum þáttum vöðvastyrks og vöðvaþols, og liðleiki þátttakenda jókst til muna. Samkvæmt mælingum breyttist líkamssamsetning þátttakenda ekkert eða óverulega, en hámarkssúrefnisupptaka jókst um 6-7%. Í umfjöllun rannsakenda um eigin niðurstöður var dregin sú ályktun að aukið vöðvaúthald hefði komið til vegna bættrar skilvirkni í taugastarfsemi í vöðvum. Einnig að eðli Hatha jógaiðkunar, þar sem kyrrstæðum teygjum er haldið í nokkurn tíma í senn, hafi ýtt undir aukna hreyfigetu og liðleika. Það geti gerst annars vegar með því að mjúkvefir umhverfis vöðva mýkist og lengist, og hins vegar með lengingu vöðvanna sjálfra með fjölgun samdráttareininga.


Lesið nánar um rannsóknina hér.


Skilvirkni öndunar

Skilvirkni öndunar hefur einnig verið meðal viðfangsefna rannsókna tengdum jóga í gegnum tíðina. Í rannsókn þar sem hópur íþróttakennara var tekinn fyrir mældist virkni lungna töluvert betri eftir þrjá mánuði af jógaástundun, en sá tími sem hópurinn gat haldið inni í sér andanum jókst um 40%. Ásamt því mældist blóðþrýstingur lægri og þátttakendur voru að jafnaði léttari eftir þessa 3 mánuði. Jafnframt voru merki um að jógaástundunin stuðlaði að aukinni skilvirkni ósjálfráða taugakerfisins, þar á meðal á hjartsláttartíðni, virkni svitakirtla og öndun.


Lesið nánar um rannsóknina hér.


Hjartsláttartíðni við iðkun ólíkra jógastíla

Í rannsókn sem gerð var árið 2007 var hjartsláttur þátttakenda mældur í 80 mínútna löngum jógatíma í þremur mismunandi jógastílum; Hatha jóga, mjúku jóga og Ashtanga yoga. Í rannsókninni voru 16 þátttakendur sem uppfylltu viðmið um 30 mínútna hreyfingu á dag í vikunni áður en rannsóknin hófst og var líkamleg hreysti þátttakenda afar mismunandi. Niðurstöður sýndu mikinn mun á hjartsláttartíðni eftir stílum og gáfu til kynna að eftir því sem jógaæfingarnar væru meira krefjandi því betur samsvaraði iðkunin viðmiðum um hjartsláttatíðni í miðlungserfiðri líkamsþjálfun. Allir þátttakendur höfðu orð á því að hafa notið þess að taka þátt í öllum jógatímunum, óháð stílnum.


Lesið nánar um rannsóknina hér.


Áhrif Sólarhyllinga

Hópur vanra jógaiðkenda framkvæmdi tólf umferðir af Sólarhyllingum á meðan fylgst var með ýmissi líkamsstarfsemi, þar á meðal hjartsláttartíðni og súrefnisupptöku. Niðurstöður sýndu að meðaltíðni hjartsláttar hjá þátttakendum á meðan á æfingum stóð var um 80% af hámarkshjartsláttartíðni, en áætlað hefur verið að æfingar af slíkri ákefð séu góðar bæði til að þjálfa loftháð þol og ná hámarksfitubrennslu. Samkvæmt ráðleggingum Lýðheilsustöðvar ættu fullorðnir almennt að stunda miðlungserfiða eða erfiða hreyfingu í samtals 30 mínútur á dag, en krefjandi jógæfingar geta uppfyllt þessi skilyrði og meðal annars stuðlað að bættri hjartaheilsu.


Lesið nánar um rannsóknina um hér.


Sálræn áhrif

Rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl milli jógaiðkunar og sálrænna áhrifa á borð við aukna meðvitund um andlegt og líkamlegt ástand, sem getur hjálpað einstaklingum að ná betri tengslum við eigin líkama. Þannig geta sjúklingar sem kljást við ýmsa verki öðlast betri skilning á þeim. Þar að auki hefur verið sýnt fram á að ástundun jóga auki tíðni jákvæðra tilfinninga (Wren, Wright, Carson og Keefe, 2011).

Eitt af því sem hefur áhrif á vellíðan er magn taugaboðefnisins gamma-amínósmjörsýru (e. gamma-aminobutyric acid [GABA]) í miðtaugakerfi. Styrkleiki þess hefur mælst lægri en eðlilegt telst hjá einstaklingum með skapgerðar- og kvíðaraskanir og flogaveiki. Jafnframt hefur verið sýnt fram á að jógaiðkun geti dregið úr einkennum þessara raskana, og er það mögulega talið vera vegna jákvæðra áhrifa jóga á GABA-framleiðslu. Árið 2010 var gerð rannsókn til að meta þessi áhrif og kanna hvort önnur, lífeðlisfræðilega sambærileg hreyfing væri jafngóð (Streeter o.fl., 2010). Í því skyni voru bornir saman tveir hópar sem tóku þátt í tólf vikna íhlutun. Annar sótti að hámarki þrjá jógatíma á viku, klukkutíma í senn, en hinn varði jafnlöngum tíma í gönguferðir. Báðir hópar voru einnig hvattir til að stunda sömu hreyfingu á eigin vegum. Gönguhópurinn stundaði meiri hreyfingu utan íhlutunarinnar, en þátttakendur í jógahlutanum sögðust að meðaltali iðka jóga einu sinni í viku á eigin vegum. Notast var við segulómun til að mæla GABA-magn í heilastúku, og viðurkennda skala til að meta kvíðaeinkenni og líðan í kjölfar æfinga. Meðal jógahópsins kom fram meiri aukning á ,,jákvæðum” þáttum skalanna og sömuleiðis dró frekar úr kvíðaeinkennum hjá þeim. Enginn marktækur munur greindist hjá gönguhópnum, hvorki yfir tímabilið né á milli mælinga beint fyrir og eftir gönguferð. Hins vegar mældist aukið magn GABA í beinu framhaldi af jógatíma, og bentu niðurstöður til að það hefði stuðlað að hinum jákvæðu breytingum sem áttu sér stað.


Lesið nánar um rannsóknina hér.


88 views0 comments

Recent Posts

See All